
Skilmálar
Yfirlit
Takk fyrir að hlaða niður smáforritinu okkar, Takk. Hér eru skilmálar fyrir notkun þess. Við biðjum þig vinsamlegast að lesa þá vandlega og ef þú samþykkir þá að haka við í reitnum „Samþykkja skilmála“ hér í smáforritinu.
Það kann að vera að við breytum skilmálunum af og til en þá munum við ávallt óska eftir að þú skoðir hina breyttu skilmála og samþykkir þá áður en þú heldur áfram að nota smáforritið.
Í þessum skilmálum segjum við annars vegar frá því hvernig við vinnum með upplýsingar um þig í tengslum við smáforritið og hins vegar lýsum við þeim skyldum sem fylgja því að nota smáforritið.
Vinnsla persónuupplýsinga þinna
Hér er að finna upplýsingar um okkur, hvernig smáforritið virkar, hvernig við vinnum með upplýsingar um þig, í hvaða tilgangi og með hvaða heimild, hvaða tegundir af upplýsingum við vinnum með um þig, hverjum við miðlum þeim til, hversu lengi upplýsingarnar verða geymdar, hver þín réttindi eru varðandi vinnsluna og hvaðan upplýsingarnar eru fengnar. Þá segjum við frá því hvaða kröfur við gerum til þeirra sem vinna með upplýsingarnar þínar, hvernig þú getur afturkallað samþykki þitt fyrir vinnslunni og fengið upplýsingum um þig eytt.
Upplýsingar um okkur
Við erum Hagar hf., Holtavegi 10, Holtagörðum, 104 Reykjavík. Við erum ábyrgðaraðili vinnslu persónuupplýsinga þinna í þessu smáforriti. Við erum móðurfélag í samstæðu félaga með starfsemi á Íslandi, í Færeyjum og í Hollandi en kjarnastarfsemi Haga er á sviði dagvöru og tengdra vöruhúsa, auk eldsneytissölu. Þjónusta sem tengist þessu smáforriti er einungis veitt á Íslandi og því er smáforritinu einungis ætlað að vera aðgengilegt og í notkun hér á landi.
Hvernig virkar smáforritið?
Smáforritið er tæki til að nota vildarkerfi okkar og til að fá upplýsingar um þau fyrirtæki sem eru á hverjum tíma þátttakendur í vildarkerfinu. Þá er í smáforritinu að finna upplýsingar um afslætti og tilboð sem þau fyrirtæki veita. Afslættir í vildarkerfinu eru kallaðir “Takk krónur” ("tkr."). Hægt er að nota áunnar tkr. sem afslátt þegar verslað er hjá sumum af þessum fyrirtækjum. Í smáforritinu er einnig að finna upplýsingar um viðburði og kynningar sem fyrirtækin bjóða upp á, auk yfirlits yfir kaup þín hjá fyrirtækjunum og yfirlit yfir stöðu eða hreyfingar þínar í tkr. Til þess að nota vildarkerfið er smáforritið notað til að bæta við korti í veski í snjalltækinu og því framvísað þegar greitt er fyrir vöru. Við það safnast tkr. af vörum sem veita slíka vild og einnig er hægt að nota áður safnaðar tkr. sem afslátt af vörum sem eru keyptar hjá þeim fyrirtækjum sem taka á móti tkr. á hverjum tíma.
Hvaða upplýsingar þínar vinnum við með og í hvaða tilgangi?
Persónuupplýsingar
Við vinnum með eftirtaldar tegundir af persónuupplýsingum um þig:
· Tengiliðaupplýsingar, þ.e. nafn, símanúmer og netfang: Við söfnum þessum upplýsingum frá þér í smáforritinu og notum til að hafa samband við þig ef þörf
krefur varðandi þjónustuna og, ef þú velur að fá markaðsskilaboð, til að senda þér upplýsingar í tölvupósti eða SMS um ný tilboð og viðburði. Ef þú skráir þig á viðburð vistum við upplýsingar um skráninguna til að geta staðfest hana, halda utan um fjölda þátttakenda, senda skilaboð til að minna á viðburðinn og benda á skylda viðburði.
· Auðkenni, þ.e. að þínu vali annað hvort farsímanúmerið þitt eða kennitala til að auðkenna aðgang þinn að Takk með rafrænum skilríkjum. Kennitalan er einnig notuð til að skrá eftirfarandi upplýsingar sem er unnið með eins og lýst er hér að neðan: Fæðingardagur; póstnúmer; aldursbil.
· Fæðingardagur: Upplýsingar um fæðingardag þinn eru geymdar til að veita þér frekari afslætti eða tengd tilboð þann dag.
· Lýðfræðiupplýsingar: Þú getur kosið að skrá ýmiss konar upplýsingar í smáforritið, svo sem um fjölskyldustærð, kyn, gæludýraeign eða áhugamál, til þess að fá aðgang að sérsniðnum upplýsingum um afslætti og tilboð sem eru í boði á hverjum tíma. Þú getur afskráð þessar upplýsingar úr smáforritinu hvenær sem þér hentar.
· Kaupsaga: Þú hefur aðgang í smáforritinu að upplýsingum um öll kaup þar sem þú auðkennir þig í vildarkerfið og öll kaup í vefverslunum sem þú hefur tengt við vildarkerfið, þ.e. hvaða vörur þú keyptir, hvar, hvenær og á hvaða verði, auk upplýsinga um afsláttinn þinn, þ.e. hvort og hve mikið þú fékkst eða notaðir af tkr. Við notum þessar upplýsingar til að ljúka afsláttarfærslum, til að uppfylla bókhaldskröfur okkar, til að veita þér framangreinda yfirsýn yfir kaup þín og til að fá innsýn í kaupmynstur hópa fólks í þínu póstnúmeri, af þínu kyni eða á þínu aldursbili, sjá nánar hér að neðan.
· Notkunarupplýsingar, þ.e. upplýsingar um hversu oft og hvernig smáforritið er notað, svo sem hvaða leið notendur fara um það og á hvað þeir smella: Við vinnum með þessar upplýsingar til að taka ákvarðanir um að breyta notendaviðmóti smáforritsins, um að benda á vinsæla eiginleika og um að hætta notkun ónotaðra eiginleika og þess háttar.
· Greiningarupplýsingar, þ.e. upplýsingar um snjalltæki þitt, þ.e. nafn, tegund og númer, stillingar snjalltækis m.t.t. tímasvæðis, tungumáls og IP-tölu, auk upplýsinga um hvort smáforritið bili, frjósi eða hætti skyndilega, hve langan tíma það tekur að ræsa og hve mikla orku það notar: Við notum þessar upplýsingar til að laga tæknileg vandamál í smáforritinu, uppfæra það og bæta það.
Persónuupplýsingar með gerviauðkennum og ópersónugreinanleg gögn
Við vinnum með eftirtaldar tegundir af persónuupplýsingum um þig í smáforritinu til að afla tölfræðilegra upplýsinga um þá viðskiptavinahópa sem nota það:
· Handahófskennd auðkennisnúmer sem eru búin til sjálfkrafa fyrir þig: Þetta er notað sem einkvæmt auðkenni þitt til að halda gögnum þínum aðskildum frá gögnum annarra notenda.
· Póstnúmer: Eins og getið er hér að ofan er kennitala þín notuð til að finna póstnúmer lögheimilis þíns sem er skráð hjá Þjóðskrá Íslands: Við notum þessar upplýsingar til að fá innsýn í kauphegðun hópa fólks sem býr í þínu póstnúmeri.
· Kyn: Þau fyrirtæki sem eru þátttakendur í vildarkerfinu leitast við að tryggja að vöruframboð sitt sé á hverjum tíma við hæfi viðskiptavina sinna, m.a. óháð kyni. Í þeim tilgangi sækjum við upplýsingar um kyn þitt eins og það er skráð hjá Þjóðskrá Íslands: Við notum þessar upplýsingar til að fá innsýn í kauphegðun hópa fólks af þínu kyni.
· Aldursbil: Eins og getið er hér að ofan er kennitala þín, þ.e. fæðingarárshluti hennar, meðal annars notuð til að viðhalda upplýsingum um aldurshópinn sem þú tilheyrir. Aldursbil hvers aldurshóps er aldrei styttra en fimm ár: Við notum þessar upplýsingar til að fá innsýn í kauphegðun hópa fólks á þínum aldri.
Í hvaða tilgangi vinnum við með persónuupplýsingar þínar?
Við vinnum með persónuupplýsingar þínar, þar með taldar upplýsingar með gerviauðkennum, eingöngu í þeim tilgangi að veita þér áðurnefnda þjónustu í smáforritinu og til að afla tölfræðilegra upplýsinga um þá hópa viðskiptavinahópa sem nota smáforritið.
Hver er heimild okkar til að vinna með upplýsingar um þig?
Við byggjum alla okkar vinnslu persónuupplýsinga um þig á samþykki þínu sem þú veitir með því að velja „Samþykkja skilmála“ hér í smáforritinu.
Hvert miðlum við persónuupplýsingum þínum?
Við miðlum persónuupplýsingum þínum til þeirra fyrirtækja sem eru á hverjum tíma þátttakendur í vildarkerfinu í þeim tilgangi að þau geti framkvæmt þær afsláttarfærslur sem þú velur í smáforritinu.
Við sendum upplýsingar um þig til vinnsluaðila okkar sem annast vinnslu þeirra til að veita þér þá þjónustu sem þú nýtur í smáforritinu. Við þá höfum við gert vinnslusamninga í samræmi við ákvæði réttarreglna um persónuvernd. Við gerum þær kröfur til sérhvers vinnsluaðila að þeir vinni með persónuupplýsingar þínar á að minnsta kosti jafn öruggan hátt eða öruggari en lýst er í þessum skilmálum og er krafist í gildandi réttarreglum um persónuvernd og leiðbeiningum um birtingu smáforritsins. Við áskiljum okkur rétt til að skipta um vinnsluaðila, að uppfylltum ákvæðum laganna. Við afhendum ekki upplýsingar um þig í öðrum tilvikum nema á grundvelli fyrirmæla í settum réttarreglum eða niðurstöðum dómstóla eða þar til bærra stjórnvalda.
Hversu lengi verða upplýsingar um þig geymdar?
Við vinnum með upplýsingar þínar þar til þú eyðir aðgangi þínum hjá okkur. Eftir það geymum við upplýsingarnar þar til afsláttur þinn rennur út og að því loknu í þann tíma sem okkur er skylt vegna ákvæða í lögum um bókhald, þ.e. nú í minnst 7 ár en ekki lengur en í 10 ár. Sumar upplýsingar kunnum við þó að geyma styttra eða alls ekki, t.d. geymum við kennitölu þína ekki eftir að við höfum lokið framangreindri vinnslu með hana.
Hver eru þín réttindi varðandi vinnsluna?
Þú átt rétt á að óska eftir aðgangi að og afriti af persónuupplýsingum þínum hjá okkur, láta okkur leiðrétta þær ef þær eru rangar eða villandi eða láta okkur eyða þeim ef við höfum ekki lengur heimild til að vinna með þær. Þessum réttindum er nánar lýst í lögum um persónuvernd, sbr. nú 17. og 20. gr. laga nr. 90/2018. Þú átt samkvæmt síðarnefndu lagagreininni einnig rétt á að flytja eigin gögn eða að við takmörkum vinnslu persónuupplýsinga um þig, að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Þú átt einnig rétt á að andmæla vinnslunni skv. 21. gr. laganna. Þá átt þú að auki rétt á að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd vegna vinnslunnar. Skrifstofa hennar er að Laugavegi 166, 105 Reykjavík og netfang hennar er postur@personuvernd.is
Hvaðan eru persónuupplýsingar þínar fengnar?
Við vinnum eingöngu með upplýsingar um þig sem þú, snjalltæki þitt eða Þjóðskrá Íslands hafa látið okkur í té eða upplýsingar sem við höfum skráð um notkun þína á smáforritinu eða upplýsingar um kaup þín hjá þeim fyrirtækjum sem eru á hverjum tíma þátttakendur í vildarkerfinu.
Hvernig getur þú afturkallað samþykki þitt fyrir vinnslunni og fengið upplýsingum um þig eytt?
Þér er ekki skylt að afhenda okkur neinar upplýsingar. Einu afleiðingar þess að þú veitir okkur ekki upplýsingar er að viðkomandi þjónusta í smáforritinu mun þá ekki virka sem skyldi eða yfir höfuð.
Þú getur hvenær sem er eytt aðgangi þínum að vildarkerfinu innan úr smáforritinu, í „Stillingar“. Að auki getur þú eytt reikningi þínum í vildarkerfinu hvenær sem er með því að hafa samband með þeim hætti sem lýst er hér að neðan undir „Hafðu samband“ og óska eftir að aðganginum verði eytt. Aðgangur eyðist ekki við það eitt að fjarlægja smáforritið af snjalltæki þínu. Við eyðingu reiknings þíns í vildarkerfinu eyðast innan þriggja mánaða allar persónuupplýsingar sem við höfum um þig nema þær sem eru á öryggisafritum eða geymdar eru vegna lagakrafna en aðgangur að þeim er skertur. Þær upplýsingar eyðast svo í samræmi við það sem kemur fram hér að framan um geymslutíma upplýsinga um þig. Ef þú velur að eyða aðgangi þínum að vildarkerfinu úr smáforritinu þá geymum við upplýsingarnar en skerðum aðgang að þeim þar til þú endurvirkjar aðgang að reikningi þínum í vildarkerfinu eða eyðir honum.
Skilyrði fyrir notkun smáforritsins
Almennt
Notkun smáforritsins er gjaldfrjáls.
Óheimilt er að afrita eða líkja eftir smáforritinu með neinum hætti, hvorki í heild eða hluta, afhjúpa frumkóða þess, þýða á önnur tungumál eða miðla til annarra.
Öll notkun á smáforritinu er á ábyrgð notanda. Við berum enga ábyrgð verði notandi fyrir tjóni vegna notkunar á smáforritinu, t.d. ef þriðji aðili kemst yfir snjalltæki notanda eða aðgang hans að smáforritinu. Þá berum við ekki ábyrgð á kostnaði svo sem af gagnaflutningi eða rafmagnsnotkun sem tengd er notkun smáforritsins. Við berum ekki ábyrgð á villum við meðferð afsláttarfyrirmæla.
Upplýsingar um stöðu afsláttar í vildarkerfinu, þ.e. „Takk krónur“ („tkr.“) hafa ekkert sjálfstætt gildi fyrir utan vildarkerfið og er hvorki framseljanleg né hægt að fá greidda út í peningum eða nota sem neins konar greiðslumiðil. Tkr. er eingöngu hægt að nýta við kaup á vörum hjá þeim fyrirtækjum sem á hverjum tíma taka við tkr. í vildarkerfinu.
Tkr. safnast ekki af þeim hluta af kaupum sem tkr. eða inneignarnótur eru notaðar í.
Allir afslættir hafa takmarkaðan gildistíma og sérhver tkr. rennur út og verður verðlaus með öllu daginn eftir að tvö ár hafa liðið frá því að þeirra var aflað.
Með því að samþykkja skilmála þessa samþykkir þú að þér kunni að verða vísað á vefsíður annarra fyrirtækja þegar þú notar smáforritið, þar á meðal vefsíður þeirra fyrirtækja sem eru á hverjum tíma þátttakendur í vildarkerfinu.
Þú mátt ekki leyfa öðrum að nýta smáforritið þitt eða vildarkjör þín hjá okkur nema við höfum heimilað það. Þannig er þér með öllu óheimilt að skrá þig með smáforriti þínu fyrir viðskiptum sem aðrir eiga við okkur.
Ef þú eyðir reikningi þínum í vildarkerfinu falla niður þau vildarkjör sem þú hefur áunnið þér. Við áskiljum okkur rétt til að leggja vildarkerfið niður eða breyta því án þess að tilkynna það sérstaklega. Við slíkar breytingar áskiljum við okkur rétt til að fella niður áunnin vildarkjör. Fyrirtæki geta kosið að gerast þátttakendur í vildarkerfinu eða hætta því hvenær sem er og hvorki þeim né okkur er skylt að tilkynna þér um upphaf eða lok þátttöku þeirra í vildarkerfinu.
Noti einhver annar smáforritið til að nota þinn afslátt við vörukaup sín þá er okkur ekki skylt að endurgreiða þér eða bæta það með neinum hætti. Þér ber að tilkynna okkur án tafar ef þú verður þess vör að einhver annar kunni að hafa öðlast aðgang að smáforritinu eða hafi án
heimildar notað smáforritið við vörukaup.
Hvers konar tilraunir þínar til að nota smáforritið á annan hátt en heimilt er skv. framangreindu geta leitt til þess að við gerum þig ábyrgan fyrir hvers kyns tjóni sem af því hlýst og eyðum aðgangi þínum að smáforritinu og reikningi í vildarkerfinu.
Hafðu samband
Þú getur ávallt haft samband við okkur á netfanginu takk@takkkronur.is um hvaðeina sem tengist smáforritinu eða vinnslu persónuupplýsinga þinna í tengslum við það.
Gildandi lög og varnarþing
Um smáforrit þetta og skilmála gilda íslensk lög. Rísi réttarágreiningur í tengslum við smáforrit þetta, svo sem um vinnslu persónuupplýsinga því tengdu, skal bera hann undir héraðsdóm Reykjavíkur.
Útgáfa skilmálanna
Þetta er útgáfa 1.1 af þessum skilmálum en hún gildir frá 1. janúar 2026. Við áskiljum okkur rétt til að breyta þeim án fyrirvara en þegar við gerum það leitumst við ávallt við að vekja athygli þína á slíkum breytingum, svo sem í SMS eða tölvupósti og biðjum þig að staðfesta að þú samþykkir þær áður en þú heldur áfram að nota smáforritið.